Hvað er prófkvíði?
Prófkvíði
- Hefur þú sleppt því að mæta í próf vegna kvíða?
- Stendur þú þig verr á prófum en í verkefnum og finnst þú geta gert betur?
Það er mjög algengt að fólk finni fyrir streitu eða kvíða áður en farið er í próf. Hæfilegt magn streitu getur bætt frammistöðu okkar og hjálpað okkur að læra og leggja okkur fram. Stundum verður kvíðinn í þessum aðstæðum of mikill og byrjar að trufla lærdóminn og frammistöðu okkar. Þá er líklega um prófkvíða að ræða.
Prófkvíði felur í sér ótta við að mistakast þar sem próf eða mat fer fram. Prófkvíði getur leitt til þess að við eigum erfitt með að tileinka okkur námsefnið þegar við undirbúum okkur fyrir próf og getur einnig haft slæm áhrif á frammistöðu okkar í prófinu sjálfu. Þó að við höfum getu og þekkingu til að standa okkur vel í þessum aðstæðum verður kvíðinn það mikill að hann truflar frammistöðu okkar. Prófkvíði kemur fram á mismunandi hátt hjá fólki, bæði er mismunandi hvaða einkennum fólk finnur fyrir og hversu truflandi þau eru.