Hvað er kvíðakast?
Kvíðakast
Kvíðakast er gífurleg hræðsla sem nær hámarki á nokkrum mínútum og því fylgir líkamleg einkenni (t.d. hraður hjartsláttur) og hugræn einkenni (t.d. ótti við að deyja). Kvíðakastið getur komið upp skyndilega og án sýnilegrar ástæðu (þ.e. engin raunveruleg hætta er til staðar) eða í aðstæðum sem valda fólki yfirleitt kvíða. Kvíðaköst eru ekki hættuleg en geta valdið fólki verulegum óþægindum þegar þau eiga sér stað. Fólk kemst yfirleitt í mikið uppnám og hefur áhyggjur af því að eitthvað alvarlegt ami að.
Fólk segist oft hafa fengið kvíðakast, en er þá að lýsa miklum skyndilegum kvíða. Líkamlegu og hugrænu einkennin sem fylgja kvíðakasti eru mun sterkari og hafa meiri áhrif á fólk en þau einkenni sem fylgja "venjulegum" kvíða. Mismunandi er hversu mörg kvíðaköst fólk fær, sumir fá aðeins eitt kvíðakast yfir ævina en aðrir fá þau reglulega. Þá getur verið um ofsakvíða að ræða sem felur í sér endurtekin, skyndileg kvíðaköst sem trufla fólk talsvert í daglegu lífi. Fólk byrjar að hafa sífelldar áhyggjur af því að fá annað kvíðakast eða breytir hegðun sinni á einhvern hátt til að koma í veg fyrir kvíðakast.
Kvíðaköst eru ekki skilgreind sem geðröskun en geta fylgt ýmsum kvíðaröskunum (t.d. félagskvíða, almennum kvíða og heilsukvíða). Kvíðaköst geta komið fram hjá öllum og er hægt að fá kvíðakast án þess að vera með kvíðaröskun.