Kvíðakast | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er kvíðakast?

Kvíðakast

Kvíðakast er gífurleg hræðsla sem nær hámarki á nokkrum mínútum og því fylgir líkamleg einkenni (t.d. hraður hjartsláttur) og hugræn einkenni (t.d. ótti við að deyja). Kvíðakastið getur komið upp skyndilega og án sýnilegrar ástæðu (þ.e. engin raunveruleg hætta er til staðar) eða í aðstæðum sem valda fólki yfirleitt kvíða. Kvíðaköst eru ekki hættuleg en geta valdið fólki verulegum óþægindum þegar þau eiga sér stað. Fólk kemst yfirleitt í mikið uppnám og hefur áhyggjur af því að eitthvað alvarlegt ami að.

Fólk segist oft hafa fengið kvíðakast, en er þá að lýsa miklum skyndilegum kvíða. Líkamlegu og hugrænu einkennin sem fylgja kvíðakasti eru mun sterkari og hafa meiri áhrif á fólk en þau einkenni sem fylgja "venjulegum" kvíða. Mismunandi er hversu mörg kvíðaköst fólk fær, sumir fá aðeins eitt kvíðakast yfir ævina en aðrir fá þau reglulega. Þá getur verið um ofsakvíða að ræða sem felur í sér endurtekin, skyndileg kvíðaköst sem trufla fólk talsvert í daglegu lífi. Fólk byrjar að hafa sífelldar áhyggjur af því að fá annað kvíðakast eða breytir hegðun sinni á einhvern hátt til að koma í veg fyrir kvíðakast.

Kvíðaköst eru ekki skilgreind sem geðröskun en geta fylgt ýmsum kvíðaröskunum (t.d. félagskvíða, almennum kvíða og heilsukvíða). Kvíðaköst geta komið fram hjá öllum og er hægt að fá kvíðakast án þess að vera með kvíðaröskun.

Líkamleg einkenni kvíðakasta

Ör hjartsláttur

Hjartað slær hraðar, getur misst úr slag eða okkur getur fundist hjartað vera að stoppa.

Sviti

Við svitnum svo að líkaminn geti kælt sig.

Skjálfti

Við finnum fyrir skjálfta í höndum, fótum eða öllum líkamanum.

Breytt öndun

Öndunin verður grynnri og okkur finnst erfitt að draga inn andann.

Köfnunartilfinning

Okkur líður eins og við séum að kafna.

Brjóstverkir

Við finnum að brjóstkassinn verður þungur, líkt og einhver sé að þrýsta ofan á hann.

Magaónot

Við finnum fyrir magaverk eða ógleði.

Svimi

Við finnum fyrir svima, finnst við vera óstöðug eða uppifum yfirlifstilfinningu.

Hita- eða kuldatilfinning

Okkur getur orðið kalt og heitt til skiptis.

Dofi

Við finnum fyrir dofa í líkamanum, t.d. í höndum og fótum.

Hugræn einkenni kvíðakasta

Óraunveruleikatilfinning

Að finnast maður ekki tengdur raunveruleikanum eða ekki tengdur sjálfum sér

Ótti við að missa stjórn

Við upplifum að við séum að missa stjórn.

Ótti við að deyja

Við erum hrædd um að við séum að deyja vegna líkamlegu einkennana.

Ótti við að missa vitið

Við upplifum að við séum að missa vitið.

Dragðu úr kvíðaköstum með aðstoð sálfræðings

Hvernig getum við hjálpað þér?

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr einkennum kvíðakasta með fjarviðtölum. Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, t.d. einkennum kvíða (t.d. ofsakvíða, félagskvíða, almenns kvíða og heilsukvíða), þunglyndislágu sjálfsmati og áfallastreitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.

Sálfræðingar Mín líðan nota aðeins gagnreyndar aðferðir sem rannsóknir hafa sýnt að eru árangursríkar við að draga úr einkennum kvíðakasta. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við flestum gerðum sálræns vanda.

Í sálfræðimeðferð hjá Mín líðan er byrjað á að fara yfir og kortleggja vítahring kvíðakasta, skoðað er hvaða þættir viðhalda honum og vítahringurinn brotinn upp með hjálplegum, gagnreyndum aðferðum.

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Hvernig bóka ég fjarviðtal?

Veldu sálfræðing

Þú velur sálfræðing sem þú vilt hefja meðferð hjá. Hjá Mín líðan starfa reyndir sálfræðingar sem veita þér persónulega og góða þjónustu.

Bókaðu tíma

Þú nýskráir þig og fyllir út upplýsingar um þig. Þinn sálfræðingur hefur samband við þig og þið finnið tíma fyrir fjarviðtal.

Mættu í fjarviðtal

Þú skráir þig inn á heimasvæðið þegar viðtalið er að hefjast, ferð í myndfundakerfið og byrjar fjarviðtalið með þínum sálfræðingi.