Hvað er hugræn atferlismeðferð?
Hugræn atferlismeðferð
Hugræn atferlismeðferð (HAM) er ein algengasta sálfræðimeðferðin sem notuð er til að takast á við sálrænan vanda, eins og þunglyndi, félagskvíða, lágt sjálfsmat, almennan kvíða, ofsakvíða, heilsukvíða, áráttu- og þráhyggju, sértæka fælni, svefnvandamál og áfallastreitu. Hún byggir á árangursríkum, vísindalegum aðferðum sem snúast um að læra nýjar leiðir til að takast á við vanlíðan. Meðferðin er gagnreynd, sem þýðir að margar rannsóknir hafa sýnt fram á að hún virki og skili árangri. Samkvæmt klínískum leiðbeiningum á Íslandi er mælt með hugrænni atferlismeðferð sem fyrsta meðferðarúrræði við flestum gerðum sálræns vanda.
HAM byggir á því að hugsanir okkar og hegðun hafi áhrif á hvernig okkur líður. Að skilja hvernig hugsanir, hegðun og tilfinningar tengjast auðveldar þér að hafa áhrif á og ná stjórn á eigin líðan. Hegðun hefur áhrif á hugsanir, hugsanir hafa áhrif á tilfinningar og tilfinningar hafa áhrif á hvernig við hegðum okkur. Þegar einum þætti í þessum hring er breytt (t.d. hugsun) hefur það áhrif á hina þættina (þ.e. hegðun og tilfinningar). Markmið HAM er m.a. að breyta neikvæðum, óhjálplegum hugsunum og hegðun og draga þannig úr sálrænum vanda.
Tökum dæmi til að skilja betur hvernig hugsanir, hegðun og tilfinningar tengjast. Ef vinur okkar svarar ekki í símann í tvo daga gætum við hugsað: „Voðalega er mikið að gera hjá honum, hann hefur ekki tíma til að svara símtölum.” Þessi hugsun er hlutlaus, hún er ólíkleg til að vekja upp sterkar tilfinningar og hefur því lítil áhrif á hvernig okkur líður. Við gætum líka hugsað: „Hann er að forðast mig, hann vill ekki tala við mig.” Þessi hugsun er miklu sterkari en sú fyrri og er líklegri til að kalla fram sterkar tilfinningar eins og kvíða, depurð og óöryggi. Hugsunin getur leitt til breyttrar hegðunar, t.d. að við hættum að hafa samband við vin okkar eða aðra vini vegna ótta við höfnun.