Hugleiðsla | Mín líðan | Sálfræðiþjónusta á netinu

Hvað er hugleiðsla?

Hugleiðsla

Hugleiðsla er ein leið til að hjálpa okkur að draga úr streitu, auka vellíðan og bæta andlega og líkamlega heilsu. Rannsóknir hafa sýnt að hún er árangursrík við að draga úr einkennum streitu og kvíða.

Vinsældir hugleiðslu hafa færst í aukana síðustu ár og hentar mörgum þar sem hún getur hjálpað okkur að njóta betur augnabliksins. Hugleiðsla snýst um að þjálfa athygli okkar og meðvitund. Markmiðið er að róa hugann og vera í auknu jafnvægi. Hugleiðsla getur breytt virkni í svæðum heilans sem tengjast athygli og tilfinningastjórn.

Það er engin ein rétt eða röng leið til að hugleiða, við þurfum að finna þá aðferð sem hentar best og uppfyllir okkar þarfir. Til eru margir hugleiðsluaðferðir sem eru ólíkar og henta fólki misvel. Þú þarft að finna hvaða hugleiðsluaðferð hjálpar þér að slaka á og lætur þér líða vel. Hér fyrir neðan eru nokkrar algengar hugleiðsluaðferðir:

  • NÚVITUND (mindfulness meditation): Núvitund er ein vinsælasta hugleiðsluaðferðin (einnig þekkt sem gjörhygli, árvekni eða vakandi athygl). Eins og nafnið gefur til kynna felur hún í sér að vera í núinu. Hún er mjög einföld í framkvæmd og snýst aðallega um að veita hugsunum okkar athygli þegar þær fara í gegnum hugann. Við dæmum þær ekki heldur fylgjumst bara með þeim og leyfum þeim að fljóta í burtu. Tilgangurinn er að verða meðvitaðri um það sem gerist innra með okkur.
  • GÓÐVILD (loving-kindness meditation): Góðvild getur hjálpað þér að draga úr streitu ásamt því að auka vellíðan. Þessi aðferð er notuð til að auka samkennd í eigin garð ásamt því að auka góðvild og samþykki gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Hún felur yfirleitt í sér að leyfa huganum að taka við ást frá okkur sjálfum (eða öðrum) og senda góða strauma til þeirra sem standa okkur næst.
  • MANTRA: (mantra meditation): Hugleiðsla með möntru er ein einfaldasta gerð hugleiðslu. Hún snýst um að endurtaka orð, setningar eða hljóð (sem hægt er að kalla möntrur) upphátt eða í hljóði, til að auka meðvitund. Mantran er það sem við einbeitum okkur að í hugleiðslunni og tilgangurinn með henni er að ná að róa hugann. Þegar við náum að einbeita okkur alfarið að möntrunni geta aðrar hugsanir og minningar ekki truflað okkur.
  • LÍKAMSSKÖNNUN: (body scan meditation): Þessi hugleiðsla snýst um að samhæfa hug og líkama með því að skanna í gegnum allan líkamann frá hvirfli niður í tær. Hún hentar vel þegar líkaminn okkar gerir eitt en hugur okkar er annars staðar. Við veitum óþægindum í líkamanum athygli (t.d. spennu og verkjum) og verðum meðvitaðri um hvernig okkur líður.
  • HREYFING (moving meditation): Þessi hugleiðsla felur í sér að nota hreyfingu (t.d. jóga eða göngutúr) til að róa hugann. Markmiðið er að samhæfa öndun og líkama með hægum hreyfingum. Hún hentar fólki sem finnur fyrir ró við hreyfingu og kýs að leyfa huganum að reika.
  • EINBEITING (focused meditation): Þessi hugleiðsla snýst um að einbeita okkur með því að nota eitt af skilningarvitunum (þ.e. sjón, heyrn, bragð, lykt eða snertingu). Við getum t.d. tekið eftir hvernig loftið sem við öndum að okkur fer inn út úr líkamanum eða talið andardrættina. Þessi aðferð hjálpar okkur að vera í núinu og hægja á hugsunum okkar
  • ÍMYNDIR (visualization meditation): Þessi hugleiðsla snýst um að ná fram slökun, kyrrð og ró með því að sjá fyrir sér atburði, fólk eða myndir. Við höldum þessum ímyndum í huga okkar og ímyndum okkar að þær verði að veruleika

 

 

Taktu fyrsta skrefið í átt að betri líðan

Sálfræðimeðferð á netinu

Hjá Mín líðan getur þú fengið aðstoð við að draga úr sálrænum vanda með: 1) 10 tima staðlaðri sálfræðimeðferð á netinu eða 2) fjarviðtölum.

Stöðluð sálfræðimeðferð á netinu

Mín líðan býður upp á 10 tíma staðlaða sálfræðimeðferð á netinu við vægum til miðlungs einkennum kvíða, þunglyndis, félagskvíða og einnig við lágu sjálfsmati. Meðferðartímarnir innihalda fræðslu, verkefni, æfingar og spurningalista. Þú lærir hagnýtar aðferðir hugrænnar atferlismeðferðar og hvernig á að beita þeim í daglegu lífi. Öll samskipti fara fram í gegnum skrifaðan texta. Hægt er að senda sálfræðingi skilaboð hvenær sem er á öruggu heimasvæði Mín líðan yfir áskriftartímann. Hægt er að prófa frían kynningartíma. Markmiðið er að þú náir tökum á þinni líðan með aðstoð sálfræðings!

Fjarviðtöl

Fjarviðtöl eru 50 mínútna myndfundir þar sem þú átt samskipti við sálfræðing augliti til auglitis með öruggum hætti í gegnum internetið. Fjarviðtöl eru eins og sálfræðiviðtöl á stofu, eini munurinn er sá að þú átt samskipti við þinn sálfræðing í gegnum netið. Í fjarviðtölum getur þú fengið aðstoð við hvers konar sálrænum vanda, s.s. lágu sjálfsmati, einkennum þunglyndis, almenns kvíða, félagskvíða og streitu. Flest stéttarfélög og margir vinnuveitendur niðurgreiða sálfræðikostnað.