Hvað er fullkomnunaráratta?
Fullkomnunarárátta
Fullkomnunarárátta snýst um óraunhæfar kröfur um frammistöðu og einkennist af þörfinni að vera eða virðast fullkominn. Við getum bæði gert miklar kröfur til okkar og annarra. Sjálfsvirði okkar er háð þessum óraunhæfu kröfum og þegar frammistaðan er ekki í samræmi við kröfurnar gagnrýnum við okkur og verðum fyrir vonbrigðum. Þrátt fyrir að kröfurnar hafi neikvæðar afleiðingar höldum við áfram að reyna að standast þær. Þrátt fyrir að fullkomnunarárátta sé ekki flokkuð sem geðröskun getur hún verið fylgikvilli.
Við getum talið fullkomnunaráráttu vera hjálplega þar sem okkur finnst hún oft hvetja okkur áfram og leiða til þess að við stöndum okkur vel. Fullkomnunarárátta getur svo sannarlega gert það, en hún getur einnig haft slæm áhrif á frammistöðu okkar. Hún getur valdið okkur mikilli streitu, leitt til þess að við verðum óánægð með okkur þegar við stöndumst ekki kröfurnar og látið okkur líða eins og við séum misheppnuð eða ekki nógu góð. Hún getur valdið því að okkur finnst við aldrei standa okkur nógu vel og eigum erfitt með að njóta þegar okkur gengur vel og gerum enn meiri kröfur til okkar. Þar af leiðandi getur fullkomnunarárátta haft slæm áhrif á andlega heilsu okkar og leitt til gremju í eigin garð, áhyggna, depurðar og kvíða.
Fullkomnunarárátta getur verið sértæk og átt við ákveðnar aðstæður (t.d. vinnu) eða almenn og átt við flestar aðstæður (t.d. vinnu, nám, samskipti, mataræði, heimilisverk, sjálfsumhirðu, heilsu og hreyfingu).