Hvað er áfallastreita?
Áfallastreita
Áfallastreita er vanlíðan í kjölfar erfiðrar lífsreynslu eða alvarlegs áfalls. Lífi eða velferð fólks hefur verið ógnað eða það orðið vitni að því að einhver annar hefur lent í slíku. Áföll geta verið af ýmsu tagi en dæmi um áföll eru alvarleg slys, kynferðisofbeldi, náttúruhamfarir og líkamsmeiðingar.
Áfallastreituviðbrögð eru eðlileg líkamleg, hugræn og tilfinningaleg viðbrögð heilbrigðs fólks við áföllum. Þau felast í því að fólk endurupplifir áfallið á einhvern hátt (t.d. fær martraðir eða sér atburðinn fyrir sér). Fólk reynir að forðast allt sem minnir það á eða tengist áfallinu (t.d. staði, athafnir, hugsanir og tilfinningar) og fer yfirleitt í uppnám ef eitthvað minnir það á áfallið. Breytingar verða á fólki, það getur orðið ómannblendið, áhugalaust og átt erfitt með að finna fyrir jákvæðum tilfinningum. Það getur fundið fyrir líkamlegri spennu, svefntruflunum, erfiðleikum með einbeitingu, pirringi, reiði, sektarkennd, sjálfsásökunum, fundist það sífellt þurfa að vera á varðbergi og brugðið auðveldlega.
Styrkur áfallastreituviðbragða fer eftir eðli og upplifun áfallsins. Eðlilegt er að finna fyrir þessum viðbrögðum í u.þ.b. mánuð eftir áfall, en ef einkennin eru til staðar svo mánuðum skiptir getur verið um áfallastreituröskun að ræða og þá getur fólk þurft að leita sér aðstoðar við þeim.