HVAÐ ER LÁGT SJÁLFSMAT?
Lágt sjálfsmat
Sjálfsmat felur í sér þær skoðanir sem við höfum á okkur sjálfum. Önnur algeng orð sem heyra undir hugtakið sjálfsmat eru m.a. sjálfsmynd, sjálfstraust, sjálfsöryggi og sjálfsvirðing. Þessi orð vísa til hvernig við hugsum um okkur sjálf, hvaða mat við leggjum á okkur sjálf og hvers virði okkur finnst við vera. Sjálfsmat er á skala, það nær frá mjög lágu sjálfsmati, upp í mjög hátt sjálfsmat og allt þar á milli. Eðlilegt er að efast um sjálfa(n) sig öðru hvoru, skorta sjálfstraust á ákveðnum sviðum eða hugsa stundum neikvætt um sjálfa(n) sig, en ef þess konar skoðanir eru mjög oft til staðar erum við líklega með lágt sjálfsmat.
Lágt sjálfsmat einkennist af litlu sjálfsöryggi og neikvæðum skoðunum á okkur sjálfum. Fólk telur sig ekki búa yfir mörgum góðum eiginleikum og telur sig ekki hafa mikið fram á að færa. Það efast um eigin getu og er gjarnt á að dæma sig og gagnrýna á neikvæðan hátt. Því neikvæðari sem skoðanirnar eru, því lægra er sjálfsmatið. Algengar skoðanir hjá þeim sem eru með lágt sjálfsmat eru t.d: Ég er ekki nógu góð(ur) - Ég er leiðinleg(ur) - Ég er óaðlaðandi - Engum líkar vel við mig - Ég er óhæf(ur) - Ég er heimsk(ur) - Ég er misheppnuð/aður - Ég er gölluð/gallaður - Ég er öðruvísi - Ég er ömurleg(ur) - Ég skipti engu máli - Aðrir eru klárari en ég - Ég er óáhugaverð(ur).
Við teljum þessar skoðanir vera staðreyndir og þær hafa neikvæð áhrif á hvernig okkur líður. Flestir hugsa á þennan hátt einhvern tímann á lífsleiðinni, sérstaklega þegar þeir standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum. En ef við hugsum daglega um okkur á þennan hátt getur það haft slæm áhrif sjálfstraustið og leitt til neikvæðra tilfinninga eins og depurðar, kvíða, óöryggis og skammar. Þeir sem eru með lágt sjálfsmat eru í aukinni áhættu á að finna fyrir þunglyndi og kvíða, sérstaklega félagskvíða. Lágt sjálfsmat getur dregið verulega úr vellíðan og lífsgæðum fólks og því er mjög gagnlegt að leita sér aðstoðar sálfræðings ef það hefur staðið yfir lengi eða hefur mikil áhrif á daglegt líf.