HVAÐ ER KVÍÐI?
Kvíði
Kvíði er eðlileg tilfinning sem allir upplifa á einhverjum tímapunkti í lífinu. Við getum fundið fyrir kvíða þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir, klára verkefni í vinnunni á stuttum tíma, þegar samband okkar við maka gengur illa eða þegar við förum yfir fjármál heimilisins. Fólk finnur fyrir kvíða við mismunandi aðstæður, það sem veldur einni manneskju kvíða hefur ekki endilega áhrif á einhvern annan.
Kvíði er ekki alltaf slæmur, hann getur oft verið mjög hjálplegur. Hann skerpir athygli okkar og við stöndum okkur oft best og náum mestum árangri þegar við finnum fyrir örlitlum kvíða. Hann hjálpar okkur að bæta frammistöðu okkur, t.d. að undirbúa okkur fyrir atvinnuviðtal, klára verkefni í skólanum, læra fyrir próf, undirbúa kynningu, fara á fund, undirbúa okkur fyrir stefnumót eða æfa okkur fyrir íþróttamót.
Þegar kvíði verður viðvarandi og truflar daglegt líf er hann ekki lengur hjálplegur. Óhjálplegur kvíði felur í sér ástæðulausan ótta. Þess konar kvíði virðist oft óleysanlegur og við upplifum að við höfum ekki stjórn á honum. Kvíði felur yfirleitt í sér hugsanir sem eru ólíklegar til að verða að veruleika, en þrátt fyrir það erum við sannfærð um að þær séu sannar. Við upplifum kvíða þegar við skynjum einhvers konar hættu eða stöndum frammi fyrir aðstæðum sem reyna talsvert á getu okkar. Fólk sem upplifir kvíða ofmetur oft þá hættu sem fylgir þeim aðstæðum sem það hræðist. Kvíðinn er þar af leiðandi ekki í samræmi við aðstæður.
Kvíði getur verið óþægilegur og honum fylgt ýmis óþægileg líkamleg einkenni, en hann er ekki hættulegur. Líkaminn okkar ræður við minniháttar kvíða en langvarandi, viðvarandi og óhóflegur kvíði getur truflað daglegt líf og dregið úr lífshamingju okkar.