HVAÐ ER FÉLAGSKVÍÐI?
Félagskvíði
Eðlilegt er að upplifa stundum kvíða í félagslegum aðstæðum. Til dæmis upplifa margir kvíða þegar þeir fara í atvinnuviðtal, fara á stefnumót eða halda ræðu. Þegar kvíðinn er óhóflega mikill og viðvarandi getur verið að fólk upplifi félagskvíða. Félagskvíði (einnig þekkt sem félagsfælni) felur í sér mjög mikla hræðslu við eina eða fleiri félagslegar aðstæður. Félagslegar aðstæður eru allar aðstæður þar sem við sjálf og annað fólk er til staðar, til dæmis að halda uppi samræðum, tala við ókunnuga, halda fyrirlestur, fara í veislu og segja nei við aðra.
Fólk finnur fyrir kvíða í félagslegum aðstæðum eða við að hugsa um slíkar aðstæður. Ástæða kvíðans er hræðsla við að koma illa fyrir, gera sig að athlægi (t.d. með því að segja eða gera eitthvað vitlaust) og verða metinn á neikvæðan hátt af öðrum. Þeir sem upplifa félagskvíða gera ráð fyrir því versta í félagslegum aðstæðum. Þeir gera ekki endilega eitthvað til að verða sér til skammar en óttast að það muni gerast eða halda að þeir hafi orðið sér til skammar.
Félagskvíði getur verið sértækur og átt við ákveðnar félagslegar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga) eða almennur og átt við flestar aðstæður (t.d. að tala við ókunnuga, borða fyrir framan aðra, tala fyrir framan aðra o.s.frv.). Fólk gerir sér grein fyrir að kvíðinn er óhjálplegur og órökréttur en veit ekki hvernig það á að takast á við hann. Einkenni félagskvíða geta verið breytileg hverju sinni og aukist þegar fólk er undir miklu álagi.